*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 22. apríl 2019 17:28

Grípa til hertra aðgerða gegn Íran

Donald Trump hyggst ekki framlengja undanþágu frá viðskiptaþvingunum sem heimiluðu átta ríkjum að kaupa olíu af Íran.

Ritstjórn
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
epa

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst ekki framlengja undanþágu á viðskiptaþvingunum gagnvart Íran. Undanþágur Kína, Indlands, Japan, Suður-Kóreu og Tyrklands um að kaupa olíu frá Íran munu renna út í maí. Haldi þau áfram olíukaupum af Íran gætu ríkin sjálf átt von á bandarískum viðskiptaþvingunum.

Trump kom viðskiptaþvingunum á eftir að hafa fallið frá kjarnorkusamkomulagi Íranstjórnar og fimm stórvelda í fyrra. BBC greinir frá því að viðskiptaþvinganirnar hafi leitt af sér gengisfall og fjórfalt hærri verðbólgu en áður, sem hafi bæði fælt frá erlenda fjárfesta og leitt til mótmæla í landinu.

Bandaríkjastjórn hóf viðskiptaþvinganir á nýjan leik í nóvember gegn Íran á sviði orkumála, skipaflutninga, skipasmíði og fjármála. Hins vegar var sex mánaða undanþága veitt til átta af helstu hráolíukaupendur Íran svo Íranir fengju tækifæri til að finna nýja kaupendur og valda ekki of miklu róti á olíumörkuðum. Þrjú ríkjanna, Grikkland, Ítalía og Tævan hafa þegar hætt að kaupa olíu af Íran en hin ríkin fimm hafa óskað eftir að halda olíukaupunum áfram.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir markmið aðgerðanna væri að auka þrýsting á Íranstjórn. Bandaríkin hafi átt í viðræðum við Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin um hvernig mætti auka framleiðslu til að tryggja nægt framboð á olíu. Olíuútflutningur Írana er kominn undir 1 milljón tunnur á dag en nam 2,5 milljón tunnum þegar Trump féll frá kjarnorkusamkomulaginu fyrir tæpu ári.

Stikkorð: Íran Donald Trump