Hlutabréf á grískum markaði hafa fallið um nær 4% í dag eftir að landinu mistókst að ná fram breyttum skilmálum á endurgreiðslu lána gagnvart ríkjum innan Evrópusambandsins. BBC News greinir frá þessu.

Í gærkvöldi hafnaði Grikkland tilboði um að framlengja endurgreiðsluáætlun upp á 240 milljarða evra sem landinu var veitt í formi neyðarláns vegna efnahagskreppunnar.

Yanis Varoufakis sagði tilboðið fráleitt og algjörlega óásættanlegt. Hann sagðist jafnframt vera tilbúinn að gera hvað sem er til þess að ná fram samningum um endurgreiðslurnar, þrátt fyrir að niðurstaða hefði ekki náðst í viðræðurnar í gær. Sagðist hann vilja ná fram samkomulagi með annars konar skilmálum.