Grískar fréttastöðvar spá því að gríska þjóðin hafi kosið nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem spurt vart hvort grísk stjórnvöld ættu að þekkjast tilboð lánardrottna þess um frekari fyrirgreiðslu, gegn aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Þessi niðurstaða er þó almennt birt með fyrirvara að svo búnu máli, enda byggð á skoðanakönnunum.

Engar útgönguspár hafa verið gefnar út en viðbúið er að fyrstu tölur verði birtar á næstu klukkutímum. Kjörstaðir lokuðu klukkan 4 á íslenskum tíma.

Ríkisstjórn öfga-vinstriflokksins Syriza hvatti til þess að gríska þjóðin myndi kjósa nei, en evrópumegin var hvatt til þess að já yrði fyrir valinu. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur sakað evrópska embættismenn um valdníðslu, kúgun og hræðsluáróður til að reyna að fá Grikki til að kjósa með tilboðum lánardrottna.

Skoðanakannanir (ekki útgönguspár) í Grikklandi benda til þess að fleiri hafi kosið nei.
Skoðanakannanir (ekki útgönguspár) í Grikklandi benda til þess að fleiri hafi kosið nei.
© european pressphoto agency (european pressphoto agency)

Að ofan má sjá niðurstöður skoðanakanna sem voru framkvæmdar í Grikklandi skömmu fyrir kosningar.

Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, sagði í gær að nei myndi líklega verða til þess að Grikkjum yrði ómöguleg frekari þáttaka í myntsamstarfi Evrópusambandsins. Slíkt myndi hafa í för með sér niðurbrot grísks hagkerfins. Margir telja að niðurstaðan muni jafnvel leiða til þess að Grikkland kljúfi sig úr Evrópusambandinu.

Verði niðurstaðan hins vegar sú að Grikkir hafi kosið með tilboðum lánardrottna verður að teljast líklegt að ríkisstjórn Syriza hrökklist frá völdum.

Beina textalýsingu The Guardian má sjá hér.