Vísitala hlutabréfa í Aþenu féll um 1,2% í dag, sem er þó öllu skárra en gærdagurinn þegar vísitalan lækkaði um 16%. Það var fyrsti dagur eftir fimm vikna stöðvun viðskipta með hlutabréf í Grikklandi.

Verð á hlutabréfum í stærstu bönkunum féll um tæp 30%, sem er þak á heimilli lækkun innan dags í kauphöllum í Grikklandi. Í gær náðu margir bankanna aftur á móti hámarkslækkun, slétt 30%.

Önnur félög í betri stöðu

Hækkun á verði á félögum sem ekki starfa í fjármálageiranum vóg á móti þessari miklu lækkun hjá grískum bönkum. Þeirra á meðal eru veðmálafyrirtækið OPAP og félög í ferðaþjónustu, til dæmis Aegean Airlines.

Gengi á hlutabréfavísitölunni hefur lækkað um 50% frá því þegar best lét á seinasta ári.

Þegar gríska kreppan stóð sem hæst var lokað fyrir viðskipti í kauphöllum í fimm vikur sem liður í fjármagnshöftum, til að forða því að evrur myndu streyma úr landinu.

Grískum fjárfestum er enn óheimilt að nota innstæður á bankareikningum til fjárfestinga í kauphöllum.

BBC greinir frá.