Húsleitir sérstaks saksóknara á sjö stöðum í dag, m.a. í höfuðstöðvum Sjóvár og Milestone, eru vegna gruns um brot á lögum um hlutafélög, brot á lögum um vátryggingastarfsemi og eftir atvikum brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu sérstaks saksóknara.

Þar segir að embættið rannsaki nú fjárfestingar og lánastarfsemi vátryggingafélagsins Sjóvár-Almennra trygginga hf. Fjármálaeftirlitið vísaði málinu til embættisins.

„Alls hafa verið framkvæmdar 9 húsleitir vegna rannsóknar málsins að undangengnum úrskurði héraðsdóms," segir í tilkynningu sérstaks saksóknara. „Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns og fjölmörgum tilvikum."

Þar segir að aðgerðirnar í dag hafi verið víðtækar og að þær hafi hafist með leit á 7 stöðum samtímis í morgun.

„Alls tóku um 25 manns þátt í aðgerðunum í dag og auk starfsmanna embættisins tóku þátt lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra auk starfsmanna frá Fjármálaeftirlitinu."