Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að í allar áætlanir við uppbyggingu efnahagslífsins vanti algjörlega hvernig standa eigi að aðstoð við fyrirtækin og heimilin í landinu. Þar geti menn verið að taka um 2.000 milljarða eða meira sem gæti þurft að afskrifa ef allt fer á versta veg. Þetta kom m.a. fram í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni nú fyrir hádegi.

„Ef allt fer vel þá gætu þetta verið skuldir sem við værum að borga. Þess vegna hef ég verið að tala svo stíft fyrir því að það væri ekki farið út í það að setja upp ríkisbanka sem hafa enga burði til að þjóna sínum viðskiptavinum. Heldur að menn fengju erlendu kröfuhafana að  bönkunum sem hluta af lausninni. Það verði settir hér upp bankar þar sem einhver eðlileg bankaviðskipti geta átt sér stað með þessar erlendu skuldir okkar. Þar sem við fáum endurfjármögnun, þar sem við fáum peninga til að fara í ný verkefni og getum haldið starfseminni allri á floti.”

Vilhjálmur segir lykilatriði að farið verði í að lækka vexti sem séu undirrótin að þeirri gjaldeyriskreppu sem við séum nú í. Í öðru lagi verði að endurskipuleggja bankana þannig að þeir lendi í höndum aðila sem geti þjóna íslenskum viðskiptavinum. Í þriðja lagi þurfi að passa upp á að atvinnuleysisskráin stækki ekki meira en algjörlega er nauðsynlegt.

Þar var einnig rætt við Ólaf Ísleifsson hagfræðing sem situr í bankaráði hins nýja Íslandsbanka sem tók undir orð Vilhjálms.

„Mér liggur við að segja að við séum efnahagslega í heljarnauðum sem þjóð. Ástandið í atvinnulífinu er með þeim hætti að það kallar á brýnar aðgerðir. Það er alveg nauðsynlegt að lækka vexti því það getur enginn atvinnurekstur risið undir þeim ósköpum sem eru hér í vöxtum. Það þarf auðvitað raunhæfa áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna. Það þarf að mynda skilyrði fyrir atvinnurekstur sem getur á grundvelli heilbrigðra starfskilyrða keppt við atvinnurekstur annarra.”

Þá sagði Ólafur að þetta er mál sem kalli á aðgerðir og pólitíska stefnumörkun. Menn þurfi að leggja einhverjar línur í þessu máli. Stór hluti fyrirtækja sé hreinlega tæknilega gjaldþrota og einnig verulegur hluti heimila.

Segir Ólafur að hægt væri að ímynda sér að þær línur væri á þá leið að verja þau fyrirtæki sem eru lífvænleg og þar með störf og atvinnu.  Í öðru lagi að fólk verði ekki hrakið út af sínum heimilum og í þriðja lagi verði menn að átta sig á því að þetta sé eins og að glíma við afleiðingar náttúruhamfara. Þá fái þeir liðsinni sem verða fyrir skaða en hinir kannski ekki.