Jón Daníelsson, dósent í fjármálum við London School of Economics, segir að hugmyndin um stórt erlent lán ríkisins til að styrkja gjaldeyrisforðann sé slæm.

„Þetta þýddi einfaldlega að ef bankarnir færu niður tækju þeir ríkið með sér,“ segir hann. „Sem mér finnst vera slæm hugmynd,“ bætir hann við.

„Það sem ríkið þarf ekki að gera núna er að tengja sig ennþá betur bönkunum, og ríkið á ekki að taka að sér að losa bankana úr vandræðum með þessum hætti. Það kunna að vera einhverjar aðrar gildar ástæður fyrir lántöku af þessu tagi, en þetta er ekki ein þeirra,“ segir Jón.

Aðspurður hvort hann telji mikilvægt að efnahagslífið hreinsi sig sjálft í yfirstandandi þrengingum, án inngrips ríkisvaldsins, segir Jón: „Ríkið er ekki nógu stórt til þess að hjálpa bönkunum ef þeir lenda í verulegum vandræðum. Þetta er ekki eins og í Bretlandi eða Bandaríkjunum, þar sem slíkt er á borðinu. Ef bankarnir fara að lenda í verulegum þrengingum er það síðasta sem við viljum að það hafi of mikil áhrif á raunhagkerfið, og alls ekki að það skaði ríkissjóð mikið. Ef ríkið á að hjálpa bönkunum, af hverju erum við þá með einkabanka? Við gætum þá allt eins bara verið með ríkisbanka,“ segir hann.

Jón segir að allir hafi alla tíð vitað að bankarnir á Íslandi stæðu mun meira einir en bankar í stærri hagkerfum.