Guðmundur Örn Gunnarsson, fyrrum forstjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS), vill koma því á framfæri að engin óeðlileg lán hafi verið veitt til starfsmanna VÍS líkt og haldið er fram í úttekt GrantThornton  á ákveðnum þáttum í starfsemi VÍS á tímabilinu febrúar 2008 til febrúar 2010. Hann segir að í kjölfar þess að skýrslu GrantThornton var skilað til Fjármálaeftirlitsins (FME), þar sem ofangreindu var meðal annars haldið fram, hafi verið sýnt fram á að þessi hluti skýrslunnar hafi verið rangur.

Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að FME  taldi rétt að Guðmundur viki úr starfi vegna óeðlilegrar lánastarfsemi sem átti sér stað í félaginu á árunum 2008-2010. Lánin sem um ræðir voru meðal annars veitt til móðurfélags VÍS, Existu, annarra aðila innan Existu-samstæðunnar og aðila sem tengdust henni. Þau voru mörg hver veitt eftir bankahrun. Meðal annars voru veitt lán til að lántakendurnir gætu mætt fasteignarskuldbindingum sínum.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að eitt þeirra lána sem FME gerði athugasemd við hafi verið 75 milljóna króna lán til Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings, með 200 milljóna króna veði í hálfbyggðu sumarhýsi hans við Veiðilæk í Borgarfirði. Tryggingabréf vegna þeirrar lántöku var gefið út 29. desember 2008. Exista, móðurfélag VÍS, var stærsti einstaki eigandi Kaupþings fyrir hrun.