Guðmundur Þór Gunnarsson, fyrrverandi viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings, var einn þeirra sem var handtekinn í morgun í tengslum við rannsókn efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar. Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum. Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), og embætti sérstaks saksóknara framkvæmdu ítarlegar húsleitir og handtók níu manns í Reykjavík og London í morgun. Rannsóknin tengist Kaupþingi.

Guðmundur Þór var viðskiptastjóri bankans gagnvart Tchenguiz-bræðrunum. Líkt og greint hefur verið frá voru þeir báðir handteknir í London í morgun. Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis var Guðmundur Þór einn launahæsti starfsmaður Kaupþings fyrir hrun. Laun hans á árinu 2007 voru að meðaltali rúmar 8 milljónir á mánuði, að því er kemur fram í frétt Mbl.

Alls voru níu einstaklingar handteknir í dag vegna rannsóknarinnar, tveir á Íslandi og sjö í London. Bjarki Diego og Guðmundur Þór Gunnarsson voru handteknir í Reykjavík. Í London voru Ármann Þorvaldsson, Sigurður Einarsson, Guðni Níels Aðalsteinsson, Tchenguiz-bræður og tveir menn sem tengjast bræðrunum handteknir.