Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands, var kjörinn formaður Félags mannauðsstjóra ríkisins á stofnfundi félagsins 2. maí síðastliðinn. Til fundarins boðaði hópur mannauðsstjóra nokkurra ríkisstofnana sem hafa hist óformlega um nokkurt skeið en þeir hafa lengi talið þörf á stofnun félags þeirra sem starfa að mannauðsmálum hjá ríkinu. Á fundinn mættu tæplega fjörtíu mannauðsstjórar og þeir sem bera ábyrgð á mannauðsmálum hjá stofnunum ríkisins.

Fram kemur í tilkynningu að aðrir í stjórn þessa nýstofnaða félags voru kjörin: Ólafur Þórðarson, starfsmannastjóri Hagstofunnar, sem er gjaldkeri, Jensína Valdimarsdóttir, starfsmannastjóri Landmælinga Íslands, sem var kjörin ritari auk varamannanna Péturs Ó. Einarssonar, starfsmannastjóra Fjársýslu ríkissins, og Ingibjörg Dís Geirsdóttir, fjármálastjóri Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Vilja bera saman bækur sínar

Í tilkynningunni segir að tilgangur Félags mannauðsstjóra ríkisins sé m.a. að vera samstarfsvettvangur mannauðsstjóra og þeirra sem bera ábyrgð á mannauðsmálum hjá ríkinu þar sem félagar geta borið saman bækur sínar, samræmt vinnubrögð, miðlað þekkingu, sótt fræðslu og stuðlað að faglegri mannauðsstjórnun í rekstri ríkisstofnana og ráðuneyta. Þá er markmið félagsins að bregðast við málum sem upp koma hverju sinni og snerta starfsmenn ríkisins.

Gert er ráð fyrir að félagið standi fyrir nokkrum fræðslufundum á ári en fyrsti fræðslufundurinn er fyrirhugaður 11. júní næstkomandi. Efni hans er staðan á mannauðskerfi ríkisins og á fundinn mæta fulltrúar frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Fjársýslunni og Advania.

Félagið hefur opnað heimasíðu. Slóðin er www.fmsr.is og er þar að finna allar upplýsingar um félagið og hvernig hægt er að gerast félagi.