Guðjón Bergmann, rithöfundur, fyrirlesari og jógakennari, er að flytja til Bandaríkjanna og mun þar bregða sér í hlutverk heimavinnandi föður, fyrstu eitt til tvö árin. Með þessu er hann að styðja eiginkonu sína í námi. Þar af leiðandi mun hann hætta öllu námskeiðahaldi hér á landi í júní næstkomandi, að því er fram kemur í frétt frá Guðjóni Bergmann.

"Þegar að ég söðlaði um og lokaði Jógamiðstöðinni um mitt ár 2006 til að hefja fyrirlestra- og námskeiðahald undir fyrirsögninni „Þú ert það sem þú hugsar“ þá var konan mín þegar farin að huga að framhaldsnámi í Bandaríkjunum að loknu viðskiptanámi í HR. Því má segja að námskeiðahaldi mínu undir þessum formerkjum á Íslandi hafi ekki verið ætlað lengra líf en tvö ár frá upphafi," segir Guðjón í fréttinni.

Námskeiðin hafa fengið "frábærar viðtökur",segir í fréttinni, sömuleiðis samnefnd bók, afleiddir fyrirlestrar og önnur námskeið.

"Fyrir það er ég mjög þakklátur. En við hjónin ætlum að standa við áður nefndar áætlanir og munum því fara af landi brott í haust þar sem konan mín, Jóhanna Bóel, mun hefja framhaldsnám í Bandaríkjunum. Við eigum að auki von á okkar öðru barni í júní og því mun ég bregða mér í hlutverk heimavinnandi föður fyrstu eitt til tvö árin á erlendri grund og hlakka mikið til að sinna börnunum mínum og styðja konuna mína til dáða í námi," segir hann.

Þessi umskipti hafa þá merkingu að Guðjón mun hætta öllu námskeiðahaldi hér á landi í júní á þessu ári.

"Þeir sem hafa haft hug á að nýta sér námskeiðið „Þú ert það sem þú hugsar“ hafa til þess þrjá möguleika í Reykjavík, í febrúar, apríl og maí, auk þess sem ég verð með námskeið á Ísafirði, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum í mars og apríl. Á vefsíðunni er kominn listi yfir námkvæmar dagssetningar og önnur námskeið sem verða í boði fram til 7.júní," segir Guðjón.

Í Bandaríkjunum mun Guðjón væntanlega, segir í fréttinni, halda áfram einhverjum ritstörfum þegar hægist á bleyjuskiptum og mun að sjálfsögðu halda sambandi við Íslendinga í gegnum fréttabréfin, bloggsíðu og jafnvel einhver önnur fjölmiðlatengsl.