Guðlaugur Þór Þórðarson hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer dagana 13. og 14. mars næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðlaugi Þór.

„Við sjálfstæðismenn göngum til kosninga með jákvæðum huga og viljum vinna að uppbyggingu og móta framtíðarsýn í anda þess öfluga hóps sem í flokknum starfar,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni.“

„Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru og er sannfærður um að úr prófkjörinu verði til trúverðugur og öflugur kjarni sem leiðir flokkinn til sigurs í næstu alþingiskosningum.“

Þá segist Guðlaugur Þór vera tilbúinn að leiða öflugan hóp sjálfstæðismanna í Reykjavík, stækka hann og styrkja enn frekar.

„Þar mun ég byggja á reynslu minni og viðhorfum í stjórnmálum og grundvallargildum sjálfstæðisstefnunnar: Stétt með stétt, samstaða um endurreisn,“ segir Guðlaugur Þor.

Þá kemur fram að Guðlaugur Þór hafi lýst þeirri skoðun sinni að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi og eigi að horfast í augu við ábyrgð sína á þeirri efnahagskreppu sem þjóðin stendur frammi fyrir. Flokknum beri að læra af mistökunum og á grundvelli þess að útfæra haldbærar úrlausnir til nýrrar sóknar í íslensku efnahagslífi.

„Það er ekki nóg að bjóða fram trúverðugan lista í Reykjavík í næstu kosningum heldur verður að virkja hinn mikla mannauð sem er innan raða Sjálfstæðisflokksins og meðal stuðningsmanna hans til að leggja hönd á plóg við endurreisn Íslands til framtíðar,“ segir Guðlaugur Þór.

„Jákvæðni og áræðni eru okkur Íslendingum í blóð borin og þessir eiginleikar munu skipta sköpum þegar við vinnum okkur út úr núverandi þrengingum. Í störfum mínum sem ráðherra, á Alþingi, í borgarstjórn Reykjavíkur og innan ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins hef ég unnið náið með fjölda hæfra einstaklinga og ekki síst notið þeirrar jákvæðu orku sem býr í sjálfstæðismönnum. Þessa orku vil ég virkja í því endurreisnarstarfi sem framundan er og til að leiða flokkinn til sigurs í næstu kosningum.“

Guðlaugur Þór segir að eitt af hlutverkum forystumanns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sé að leiða innra starf flokksins í Reykjavík og nýta þannig þann mikla mannauð sem þar er.

„Verkefnið er að ná betur til flokksmanna og styrkja tengslin, t.d. við launþegasamtök. Gera þarf flokksmenn virkari í störfum og stefnumótun innan flokksins. Við eigum að nýta nýja samskiptatækni til hins ýtrasta,“ segir Guðlaugur Þór sem hefur opnað nýja vefsíðu, www.gudlaugurthor.is .