*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 28. september 2020 17:21

Á gullforði heimsins 14 ár eftir?

Talið er að gullforði heimsins sé um 50 þúsund tonn, miðað það sem hagstætt er að grafa eftir. Árið 2019 nam framleiðslan 3,5 tonnum.

Ritstjórn
epa

Á síðasta ári nam gull framleiðsla alls 3.531 tonni eða um einu prósenti minna en árið áður. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem gullvinnsla dregst saman milli ára en gullverð er sögulega hátt nú um mundir. Óvissa ríkir um hvort árleg gull framleiðsla hafi náð hámarki eður ei.

Heildargullforða heimsins má skilgreina á minnsta kosti tvo máta. Annars vegar sá forði sem hagstætt er að grafa eftir miðað við núverandi gullverð og tækni og hins vegar heildarforða. Ef litið er á fyrri kostinn er talið vera um 50 þúsund tonn af gulli í heiminum, samkvæmt frétt BBC. Ef miðað er við námuvinnslu ársins 2019 myndi taka ríflega 14 ár að klára þann forða.

Auk óvissunnar sem ríkir um áðurnefnd viðmið kann ný tækni að lækka framleiðslukostnað á gullgrefti sem aukið getur við áætlaðan forða. Talið er að um 190 tonn af gulli hafi nú þegar verið grafið eftir. Um þriðjungur af öllu því gulli er að finna í Witwaterstrand í Suður-Afríku.

Ef tækni helst stöðug verður námugröftur sífellt erfiðari enda þær námur sem auðveldast er að vinnu úr nýttar fyrst. Talið er að um 60% af námuvinnslu sé við yfirborð jarðar á meðan um 40% af námugrefti á sér stað neðanjarðar.

Gullverð sögulega hátt í heimsfaraldrinum

 Í dag kostar eins únsa af gulli um 1.870 Bandaríkjadali, jafngildi 261 þúsund krónum. Það sem af er ári hefur gullverð hækkað um 23%, til samanburðar hefur S&P 500 vísitalan hækkað um tæplega þrjú prósent á þessu ári.

Í sumar á þessu ári fór gullverð í fyrsta sinn yfir 2.000 Bandaríkjadali og fór það hæst í um 2.050. Á síðustu tólf mánuðum hefur gullverð hækkað um fjórðung en tæplega 65% á síðustu fimm árum.

Stikkorð: Gull gullforði gullgröftur