Kafarar á vegum fjársjóðsleitarfyrirtækisins Blue Water Ventures fundu á sunnudag afar óvenjulegan tannstöngul og eyrnapinna á hafsbotni um það bil 65 kílómetra út fyrir Key West í Flórída, Bandaríkjunum.

Kafararnir voru að kanna skipsflak galeiðunnar Santa Margarita, sem sökk í óveðri árið 1622.

Tannstöngullinn/eyrnapinninn er talinn 385 ára gamall og var augljóslega festur í gullkeðju sem eigandi hans bar um hálsinn. Gripurinn er um 7,5 sentímetra langur og er metinn á um 100 þúsund dollara, eða tæplega 7,3 milljónir króna.