Guðmundur Örn Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri VÍS. Guðmundur mun taka við starfinu 1. janúar næstkomandi af Ásgeiri Baldurs, sem lætur af störfum hjá VÍS að eigin ósk að því er kemur fram í tilkynningu.

Guðmundur hóf störf á vátryggingamarkaði árið 1984 að loknu námi í stærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur gegnt margvíslegum störfum fyrir Tryggingamiðstöðina, nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, auk þess að sitja í stjórn norska tryggingafélagsins NEMI. Ásgeir Baldurs hefur starfað hjá VÍS frá árinu 2000 og hefur gengt starfi forstjóra frá árinu 2006. Hann hyggur nú á eigin rekstur ótengdan vátryggingum.

VÍS er í eigu fjármálaþjónustufyrirtækisins Exista hf. og segir Sigurður Valtýsson, forstjóri Exista og stjórnarformaður VÍS, í tilkynningu að það sé mikill fengur að fá Guðmund til liðs við félagið. „Guðmundur hefur yfirgripsmikila þekkingu á rekstri vátryggingafélaga og mun án efa styrkja enn frekar þann öfluga stjórnendahóp sem VÍS hefur á að skipa. Við viljum þakka Ásgeiri Baldurs fyrir gott og mikið starf í þágu VÍS og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,” segir Sigurður í tilkynningu.