Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Hann verður ekki í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem fram fer í byrjun febrúar næstkomandi.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að átján manns gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þar á meðal eru Ármann Kr. Ólafsson, núverandi bæjarstjóri, og aðrir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, að Gunnari undanskildum.