Verið er að misnota réttarkerfið og fjölmiðla, að mati Gunnars Þorsteinssonar, sem löngum hefur verið kenndur við trúfélagið Krossinn. Í þætti Kastljóss Ríkissjónvarpsins í gær var greint frá því að stjórn áfangaheimilisins Krossgatna hafi farið fram á að embætti sérstaks saksóknara rannsaki meðferð Gunnars á fjármunum heimilisins bókhaldsárin 2008 til 2012. Krossgötur hafa um árabil þegið framlög úr ríkissjóði til reksturs áfangaheimilisins en Gunnar var framkvæmdastjóri Krossgatna til ársins 2012.

Á meðal þess sem stjórnin vill að verði skoðað eru bifreiðaviðskipti upp á nokkrar milljónir króna, lán til Krossins upp á rúmar 1,3 milljónir króna og kaup á fjölda raftækja.

Gunnar vísar þessum ásökunum aftur til föðurhúsanna í aðsendri grein sem birt var í Fréttablaðinu í dag.

Hann skrifar:

„Þennan undarlega málatilbúnað verður að skoða í ljósi þess að sú stjórn sem þetta gerir situr án umboðs. Hún er skipuð af stjórn Krossins sem kosin var á ólöglegum fundi þar sem fjölmargar réttarreglur voru brotnar. Flestir þeirra stjórnarmanna sem þá voru settir inn hafa yfirgefið stjórnina og eru ekki virkir. Einn óskaði eftir að segja af sér, en honum er tjáð að það geti hann ekki nema á fundi. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Enginn ársfundur var haldinn í fyrra þrátt fyrir að ítrekað væri rekið á eftir því og fyrirheit voru gefin um það. [...] Tímasetning þessarar beiðni um rannsókn segir eiginlega allt sem segja þarf. Menn hafa gripið til þeirra óyndisúrræða að sverta mig sem þeir mega og vega að mér með þeim hætti að mér verði ekki stætt á því að halda minni baráttu áfram fyrir breytingum í stjórn Krossins. Hér eru menn með augljósum og óábyrgum hætti að misnota fjölmiðla og réttarkerfið til að ná fram annarlegum markmiðum. Það sjá allir sem vilja sjá að stjórn Krossins hefur brotið lög sem og samþykktir safnaðarins með framgöngu sinni. Nú skal búin til smjörklípa til að breiða yfir það. [...] Auðvitað ætti að biðja um opinbera rannsókn á starfsháttum stjórnarmanna í Krossinum sem hafa með ótrúlegum lagaklækjum, svikum og fláræði barist fyrir annarlegum hagsmunum.“