Gunnar Sveinn Magnússon hefur gengið til liðs við Deloitte sem meðeigandi og stjórnandi í loftslags- og sjálfbærniuppbyggingu félagsins á Íslandi og á Norðurlöndum.

„Deloitte hefur sett þennan málaflokk í forgang á alþjóðavísu og ætlar félagið sér að vera lykilþátttakandi í að styðja stjórnvöld og atvinnulíf við að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030,“ segir í fréttatilkynningu.

Ráðning Gunnars er sögð mikilvægur hlekkur í þeirri vegferð en hann mun koma til með að leiða þjónustu Deloitte við viðskiptavini sína, taka þátt í erlendum verkefnum og stýra stefnumótun Deloitte í þessum málaflokki.

Gunnar býr yfir fimmtán ára reynslu af sambærilegum störfum. Hann starfaði síðast hjá EY þar sem leiddi sjálfbærniteymi endurskoðunarfyrirtækisins og var meðal hluthafa. Gunnar starfaði þar áður hjá Íslandsbanka en þar leiddi hann setningu nýrrar sjálfbærnistefnu og stýrði lykilverkefnum á sviði sjálfbærni.

Gunnar starfaði á árunum 2012-2017 við tæknilega fjármálaráðgjöf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC og þar áður starfaði hann við fjármálaráðgjöf hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel.

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte:

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Gunnar til liðs við okkur og væntum mikils af honum. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga og annarrar áhættu tengdri sjálfbærni kalla á stórhuga aðgerðir. Deloitte ætlar sér að vera hluti af lausninni og styðja við atvinnulífið í að verða sjálfbærara og „grænna“ og þannig vinna með stjórnvöldum við að ráðast að rót vandans. Markmið Deloitte er að stórauka við fjárfestingar sínar á sviði sjálfbærni og er ráðning Gunnars til marks um þennan ásetning. Félagið ætlar jafnframt að samþætta sjálfbærni og loftslagsmál inn í alla sína starfsemi til að tryggja að viðskiptavinir félagsins fái sem besta þjónustu hverju sinni.“

Gunnar Sveinn:

„Framundan eru krefjandi tímar með aukinni áherslu á orkuskipti, kolefnishlutleysi, hringrásarhagkerfi og náttúruvernd en jafnframt þarf að huga að auknu jafnrétti, mannréttindum og gagnsæjum stjórnarháttum í virðiskeðjunni svo eitthvað sé nefnt. Til að ná árangri á þessum sviðum er lykilatriði að tengja hagsmuni fyrirtækja beint við markmið stjórnvalda og hag samfélagsins í heild og gera það „góðan business“ að selja grænar vörur og fjárfesta í sjálfbærni. Deloitte er með mikinn metnað og ætlar sér að vaxa hratt á þessu sviði í samvinnu með Deloitte á Norðurlöndunum. Ég er mjög spenntur fyrir því að leiða uppbyggingu og stefnumótun Deloitte á sviði loftslagsmála og sjálfbærni hér á landi og vera jafnframt hluti af norrænu stjórnendateymi félagsins.“