*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 18. desember 2019 17:03

Gunnar tilnefndur varaseðlabankastjóri

Fjármálaráðherra tilnefnir Gunnar Jakobsson frá Goldman Sachs sem varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika.

Ritstjórn
Gunnar Jakobsson hlýtur tilnefningu sem þriðji varaseðlabankastjórinn í Seðlabanka Íslands. Hann kemur frá fjárfestingabankanum Goldman Sachs.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur tilnefnt Gunnar Jakobsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipar í embættið, að undangenginni tilnefningu Bjarna.

Gunnar Jakobsson er lögfræðingur að mennt, með MBA próf frá Yale og hefur undanfarin ár gegnt stjórnunarstöðum hjá Goldman Sachs, fyrst í New York og nú síðast sem framkvæmdastjóri lausafjársviðs og persónuverndar Goldman Sachs International í London.

Forsætisráðherra auglýsti 3. október 2019  eftir varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Fjármála-og efnahagsráðherra skipaði þriggja manna hæfnisnefnd til að fjalla um hæfni umsækjendanna og lauk hún störfum sl. mánudag. Niðurstaða hennar var að meta fimm umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú farið yfir gögn málsins, niðurstöður hæfnisnefndarinnar og tekið viðtöl við þá fimm einstaklinga sem nefndin mat mjög vel hæfa. Að loknu heildarmati hefur ráðherra ákveðið að tilnefna Gunnar Jakobsson í embættið.

Í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem taka gildi um áramótin, er forsætisráðherra falið að skipa bæði seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra. Varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits skulu þó skipaðir að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.