Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun skýrslu nefndar sem skipuð var til að endurskoða reglur um skipan dómara og koma með tillögur að nýjum reglum.

Nefndin leggur m.a. til að sömu reglur gildi um skipan hæstaréttardómara og héraðsdómara og fjölgað verði í dómnefnd. Þá verði skipunarvaldið áfram hjá dómsmálaráðherra, en ákveði hann að skipa annan en dómnefndin mælir með, verði hann að leggja tillögu um skipun annars hæfs umsækjanda fyrir Alþingi.

Ráðherra hyggst nú leita sjónarmiða um tillögur nefndarinnar og gefst áhugasömum tækifæri til að senda ábendingar á netfangið [email protected] fyrir 15. nóvember næstkomandi.

Nefndin var skipuð 3. mars síðastliðinn til að vinna að því að móta tillögur um setningu nýrra reglna um skipan dómara, í samræmi við verkefnaskrá þáverandi ríkisstjórnar.

Í nefndinni sátu Guðrún Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var formaður hennar, Hákon Árnason hæstaréttarlögmaður og Ómar Hlynur Kristmundsson, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Jafnframt var skipaður sérstakur samráðshópur sem í sátu fulltrúar ASÍ, BHM, BSRB, Mannréttindastofnunar Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.