Guðrún Högnadóttir hefur verið ráðin Þróunarstjóri Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur við Viðskiptadeild skólans. Guðrún er heilbrigðisrekstrarhagfræðingur að mennt en hún lauk MHA og BSPH prófgráðum frá University of North Carolina í Chapel Hill.  Guðrún lauk jafnframt Associate Certified Coach prófréttindum frá CCU árið 2004.

Guðrún hefur starfað við stjórnunarráðgjöf síðan 1998 einkum á sviði stefnumótunar, skipulags- og mannauðsmála og gæðastjórnunar.  Hún var einn meðeiganda IMG Ráðgjafar áður Deloitte & Touche Ráðgjöf.  Hún var fræðslustjóri Ríkisspítala og forstöðumaður gæða- og þróunarskorar Landspítalans á árunum 1991 til 1998.  Guðrún hefur jafnframt tekið þátt í starfi innlendra og erlendra fagfélaga, stjórna og nefnda auk kennslu.

Guðrún er gift Kristni Tryggva Gunnarssyni, stjórnunarráðgjafa og eiga þau saman dæturnar Kristjönu Ósk og Ingunni Önnu.

Guðrún hóf störf við Háskólann í Reykjavík þann 17. mars.  Hún mun jafnframt starfa áfram við einkaþjálfun stjórnenda (executive coaching).