Tækifæri eru fólgin í því að auka verðmætasköpun og fjölga störfum í landbúnaði, að mati Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands.

Hann var á meðal gesta á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar var til umfjöllunar.

Komið var inn á atvinnumál og útflutning í skjóli lágrar krónu. Hann telur að gera megi enn betur.

„Það er dapurlegt að horfa upp á það að við erum að flytja út óunnið og illa frágengið lambakjöt í stórum kössum. Við förum með þetta hráefni sem við segjum það besta í heimi eins og hverja aðra tusku,“ sagði hann og hvatti til þess að kjöt verði unnið betur áður en það er flutt úr landi. Það sama eigi við um í sjávarútvegi.