Einhliða upptaka annars gjaldmiðils  er álíka gagnslaus og að prentun peningaseðla í bílskúr. Myntina má kalla hvað sem er, dollar, evru eða pund og líka gull. „Við getum bara ekki gert ráð fyrir að aðrir trúi því,“ skrifar Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hann skrifar aðra grein í ritdeilu sem fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson efndi til á síðum Fréttablaðsins á dögunum. Heiðar fjallar þar um Icesave og skuldir Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hann hefur m.a. sagst hafa greitt úr eigin vasa fyrir heimsókn nokkurra heimsþekktra sérfræðinga í skuldamálum til að leysa úr vanda OR. Á meðal sérfræðinganna var Lee C. Buchheit, sem gerði síðust Icesave-samningana haustið 2010. Samningarnir voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2011.

Kenningar pennavinar

Í síðustu grein sinni sakaði Heiðar Gylfa um að skilja ekki grunnatriði fjármála. Undir þetta tekur Gylfi í dag en með þeim fyrirvara þó að hann skilji ekki það sem Heiðar telji grunnatriði.

Gylfi skrifar:

„Greinin byggir nefnilega fyrst og fremst á þeirri nýstárlegu kenningu Heiðars Más að fyrirtæki sem eru með tekjur í einni mynt og útgjöld í annarri hljóti að vera gjaldþrota. Það fæ ég ekki skilið og hef aldrei séð þessa kenningu áður, nema auðvitað í greinum þessa pennavinar míns.“

Skolpdælur spýta ekki úr sér evrum og jenum

Um meinta fjárþörf OR segir Gylfi:

„Staða Orkuveitunnar, sem málið snýst um, er einföld. Hún hefur talsverðar tekjur í erlendri mynt, sem duga fyrir vöxtum og hluta afborgana af erlendum lánum. Jafnframt hefur hún talsverðar tekjur í krónum. Vegna þess þarf fyrirtækið að nota hluta af tekjum í krónum til að kaupa erlenda mynt. Nánar tiltekið þarf OR að kaupa jafnvirði um 8 til 9 milljarða króna af gjaldeyri á ári næstu fimm ár miðað við núverandi horfur. Það er vel innan við 1% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og skiptir ekki sköpum fyrir gengi krónunnar. Eftir fimm ár lækkar þörfin til muna og á endanum verður OR seljandi en ekki kaupandi á gjaldeyri. Ef lán sem koma á gjalddaga næstu fimm ár verða endurfjármögnuð að einhverju marki verða kaupin sem því nemur minni þann tíma. Þessi gjaldeyriskaup eru ekki óvænt. Það var beinlínis að þeim stefnt þegar teknar voru ákvarðanir um fjármögnun fyrirtækisins á árum áður. Sem dæmi má nefna að miklar framkvæmdir í skólpmálum á höfuðborgarsvæðinu voru fjármagnaðar með erlendum lánum sem Reykjavíkurborg tók en hvíla nú á OR. Þá lá fyrir að skólpdælurnar myndu ekki spýta út úr sér evrum eða jenum. Þess í stað yrði að greiða lánin niður með tekjum í krónum. Það er líka staðan nú. Flóknara er þetta ekki.“