Bjarne Graven Larsen, forstjóri FIH erhvervsbank í Danmörku, telur of snemmt að segja til um hversu góð fjárfesting í bankanum sé fyrir núverandi eigendur bankans. „Ég held að sýnin sé sú að að við þurfum að sjá hvernig þetta fer. Það er eflaust of snemmt að reikna það út,“ segir Bjarne. Hann segir mikilvægt að geta sýnt fram á hagnað á þessu ári og að stjórnendur bankans geti einbeitt sér að því að reka bankann á hagkvæman hátt,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

FIH bankinn hefur þurft að afskrifa háar fjárhæðir á undanförnum árum. Á síðasta ári mat bankinn nauðsynlegar afskriftir vegna útlánatapa um 1.337 milljónir danskra króna. Það samsvarar um 29 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar voru afskriftirnar um 266 milljónir danskra króna árið 2011, 1.423 milljónir árið 2010 og 1.028 milljónir árið 2009. „Hluti af afskriftum bankans á fjórða ársfjórðungi 2012, um 300 milljónir, var vegna ákvörðunar stjórnenda. Þó svo að við gerðum ráð að lánasöfnin væru rétt metin þá var ákveðið að lækka matið um 300 milljónir,“ segir Larsen sem játar að stjórnendur bankans séu varfærnir í mati á eignum hans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.