Virði Bláa lónsins var fært upp um meira en helming í bókum Almenna lífeyrissjóðsins og yfir fimmtung hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna samkvæmt ársreikningum lífeyrissjóðanna.

Hlutirnir eru nú metnir verðmætari en fyrir heimsfaraldurinn. Bláa lónið tapaði samtals um fjórum milljörðum króna árin 2020 og 2021 en lónið var lokað í sex mánuði bæði árin.

Nokkur breyting varð á eigendahópi Bláa lónsins á árinu. Fjárfestingafélagið Stoðir komu inn í hluthafahóp Bláa lónsins og áttu 7,3% hlut um áramótin . Alls eiga lífeyrissjóðir um helmingshlut í Bláa lóninu í gegnum félögin Blávarma og Hvatningu.

Áætla má að virði Bláa lónsins sé ríflega 60 milljarðar króna samkvæmt uppgjöri Almenna lífeyrissjóðsins sem er áþekkt virði og miðað var við í viðskiptum með hluti í Bláa lóninu á síðasta ári.