Þriðja daginn í röð hækka hlutabréf í Bretlandi, eftir að Mark Carney, seðlabankastjóri landsins gaf í skyn frekari aðgerðir til að ýta við hagvexti væru líklegar.

Hærra en fyrir þjóðaratkvæði

Við opnun markaða fyrir um hálftíma síðan hafði FTSE 100 vísitalan breska hækkað 0,63% og FTSE 250 vísitalan hækkað um 0,42%. Við lokun markaða í gær hafði FTSE 100 vísitalan náð hærra stigi en á fimmtudaginn í síðustu viku.

Einnig voru hækkanir í Wall Street í gær þar sem Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,33% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,36%. Það hjálpaði til í nótt á mörkuðum í Asíu þar sem hækkanir voru þriðja daginn í röð. Þar hækkaði MSCI Asia Pacific vísitalan um 0,3% svo hún nálgast 3% hækkun í vikunni.

Í Tokyo hækkaði Nikkei 225 vísitalan um 0,5% meðan Topix vísitalan hækkaði um 0,8%. Í Hong Kong og Tælandi voru hlutabréfamarkaðir lokaðir í dag vegna helgidaga.

Gull ásamt pundi hækka áfram

Gullverð hélt þó áfram að hækka fimmtu vikuna í röð og breska pundið helst í 1,33 Bandaríkjadölum og 1,199 evrum, sem er hækkun frá því að seðlabankastjórinn kom með tilkynninguna áðurnefndu.

Það er þó töluvert lægra en þegar það náði 1,50 dölum stuttu áður en niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi á fimmtudaginn fyrir viku, þar sem úrsögn úr ESB var samþykkt, komu í ljós.