Japanska yenið lækkaði á mörkuðum í nótt, eftir kosningar í landinu yfir helgina.

Kosningar í Japan

Hækkaði bandaríski dalurinn um 1,64% á móti yeninu sem og hlutabréf í Tokyo tóku við sér og hækkuðu um 3,98%. Gerðist þetta í kjölfarið á því að ríkisstjórn forsætisráðherrans Minister Shinzo Abe styrktist í sessi í kosningum til efri deildar japanska þingsins.

Er kosningasigurinn álitið merki um að hagvaxtarstefna forsætisráðherrans, sem kölluð hefur verið abenomics, sé að virka og njóti trausts. Snýst hún um að beita peningastefnunni til að reyna að stöðva áratuga verðhjöðnun í landinu og koma á verðbólgu. En vandamálið er að yenið hefur haldist nokkuð stöðugt og gefið minna eftir en vonast er til, sérstaklega á óvissutímum þegar fjárfestar líta á það sem örugga höfn.

Hækkanir á mörkuðum í nótt

Hækkanir voru víðar í Asíu og nágrenni, hækkaði Ástralska S&P/ASX 200 vísitalan um 2,04%, Kospi vísitalan í Kóreu hækkaði um 1,30% og Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 1,54%. Shanghai Composite vísitalan í Kína hækkaði um 0,23%.

Hækkanirnar má að hluta til rekja til væntinga um að til frekari aðgerða verði gripið til að örva efnahagslífið eftir niðurstöður kosninganna, sem bætist ofan á góðar fréttir af atvinnutölum frá Bandaríkjunum á föstudag.

Hækkanir eru á mörkuðum í Kína þrátt fyrir að neysluverðsvísitölur fyrir júnímánuð hækkuðu minna en búist var við, eða 1,9% í stað 2% í maí.