Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti úr 4,5% í 5,5% það sem af er ári og hefur lýst því yfir að líklegt sé að vextir haldi áfram. Þróun ávöxtunarkröfu og eignaverða benda þó ekki eindregið til þess að stýrivaxtahækkanirnar hafi haft tilætluð áhrif.

Þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti til þess að slá á þenslu í hagkerfinu er ætlunin að hafa áhrif á hegðun fólks með ýmsum miðlunarleiðum. Stýrivaxtahækkanir geta gert væntingar neytenda og fyrirtækja neikvæðari og þannig dregið úr neyslu og fjárfestingum. Hærri stýrivextir leiða alla jafna að sér hærri ávöxtunarkröfu á skuldabréfum ríkissjóðs, banka og fyrirtækja, sem dempar hagkerfið með margvíslegum hætti.

Erfiðara að hreyfa verðtryggða vexti

Þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa farið lækkandi frá því í byrjun júní. Þróunin hefur verið sérstaklega áberandi á löngum óverðtryggðum bréfum. Ávöxtunarkrafa langa óverðtryggða skuldabréfaflokksins RIKB 31 var um 7,5% í byrjun sumars, en var 5,28% við lokun markaða í gær.

Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir peningastefnuna eðli málsins samkvæmt hafa takmörkuð áhrif á verð langra óverðtryggðra bréfa. Hann segir lækkun óverðtryggðu kröfunnar eiga sér eðlilegar skýringar. Trúverðug áætlun um afnám fjármagnshafta ætti ein og sér að valda lækkun ávöxtunarkröfunnar. Auk þess hafi erlendir aðilar verið að koma inn á skuldabréfamarkaðinn og þrýsta verði skuldabréfa upp.

Aðspurður segir Konráð erfitt að meta hvort Seðlabankinn hafi mikla stjórn á verðtryggðum vöxtum. „Það er eðli málsins samkvæmt erfiðara fyrir hann heldur en með óverðtryggðu vextina,“ segir Konráð, en stýrivextir Seðlabankans eru óverðtryggðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .