Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að verja 4,6 milljónum af ráðstöfunarfé sínu til viðbótargreiðslna til hælisleitenda. Undanfarin ár hafa umsækjendur um hæli, eða alþjóðlega vernd fengið greiðslu í desember til viðbótar við fastar framfærslugreiðslur.

Ekki hafa verið til staðar reglur um þessar greiðslur, heldur hefur ákvörðun verið tekin hverju sinni og hefur þetta því ekki alltaf verið framkvæmt með sama hætti.

Nú njóta 518 umsækjendur um alþjóðlega vernd þjónustu hjá Útlendingastofnun og sveitarfélögunum Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Af þessum 518 eru 403 fullorðnir einstaklingar og 114 börn.

„Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin gat brugðist við með þessum hætti nú“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að afloknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Mér finnst afar  mikilvægt að mál sem þessi séu í föstum farvegi til framtíðar litið þannig að ekki skapist óvissa eða mismunun frá einu ári til annars og við munum í framhaldinu vinna að því að það verði gert.“