Talsverðar hræringar hafa orðið á íslenskum fjarskiptamarkaði undanfarin misseri, en nýlega samþykkti Síminn að selja fjarskiptafélagið Mílu til franska framtaks- og innviðasjóðsins Ardian í 78 milljarða króna viðskiptum.

Novator hefur verið virkur fjárfestir á alþjóðlegum fjarskiptamarkaði og má búast við um 50 milljarða króna greiðslu fyrir þriggja prósenta hlut sinn í ítalska félaginu Telecom Italia, gangi 33 milljarða evra yfirtökuboð bandaríska fjárfestingasjóðsins KKR eftir. Þá seldi Novator hlut sinn í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play á ríflega 70 milljarða króna fyrir rúmu ári. Að auki er Novator eigandi síleska fjarskiptafyrirtækisins Wom.

Gæti verið yfir 20 milljarða króna virði

Samkvæmt nýjasta ársreikningi Nova nam hagnaður fyrirtækisins rúmum milljarði króna árið 2020 og hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam tæpum 2,8 milljörðum króna. Miðað við markaðsvirði helstu alþjóðlegu fjarskiptafyrirtækjanna á borð við AT&T, T-Mobile, Deutsche Telekom, Telenor og Verizon, sem eru verðlögð á 6-7 sinnum EBITDA, mætti því gera ráð fyrir því að heildarvirði Nova gæti verið á bilinu 17 til 20 milljarðar króna. Ekki er ólíklegt að EBITDA þessa árs og næsta verði hærri hjá félaginu og verðmatið þá hærra eftir því.

Samkvæmt ársreikningi Nova ber félagið engar vaxtaberandi skuldir, en móðurfélagið Platínum Nova, sem heldur nú utan um allan eignarhlut Pt Capital í félaginu, skuldaði rúma sex milljarða króna um síðustu áramót.

Sé litið til íslensku fjarskiptafélaganna tveggja sem skráð eru á markað, Símans og Sýnar, mætti ætla að markaðsvirði Nova miðað við hérlendar markaðsaðstæður gæti verið nokkru lægra, sé eingöngu litið til EBITDA margfaldara. Sé leiðrétt fyrir sölu Símans á Mílu til Ardian er félagið verðlagt á um það bil fimm sinnum EBITDA. Sýn er verðlagt á um það bil 4,5 sinnum EBITDA (ekki leiðrétt fyrir sölu óvirkra fjarskiptainnviða til Digital Colony). Miðað við slíkt verðmat yrði heildarvirði Nova á bilinu 12,5-14 milljarðar króna miðað við EBITDU ársins 2020. Þess ber þó að geta að ýmsir aðrir þættir geta spilað inn í verðmat, svo sem væntur tekjuvöxtur og sjóðstreymi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .