Þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaði má ekki greina samsvarandi aukningu í nýjum útlánum skv. upplýsingum úr Peningamálum. Líklega eru fjárfestar nú farnir að sýna fasteignum aukinn áhuga og peningur streymir því úr innlánum inn á fasteignamarkaðinn, m.a. vegna þess að það eru strangari veðskilyrði í dag en hér áður.Þetta segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag.

„Þetta er í raun eðlileg þróun enda liggur nú fyrir „plan“ hjá ríkisstjórninni um hvernig staðið verður að afnámi hafta og þar kemur skýrt fram að innlendir fjárfestar eru þeir síðustu til að mega fara með peninga sína úr landi. Því er ljóst aukinn áhugi fjárfesta á fasteignamarkaði má rekja til þess að það eru og verða áfram fáir aðrir fjárfestingakostir í boði enda útlit fyrir að gjaldeyrishöftin verði hér a.m.k. næstu fimm árin ef ekki lengur. Annar þáttur sem spilar ekki síður stórt hlutverk er talsverð uppsöfnuð eftirspurn sem er til staðar á íbúðamarkaði, sem endurspeglast m.a. í háu leiguverði. Sú eftirspurn er líklega að færa sig yfir á kaupmarkaðinn nú í auknum mæli. Afleiðing vegna þessa má nú greina í hækkun fasteignaverðs sem skilar sér í aukinni verðbólgu,“ segir í Markaðspunktum.

Hækkun húsnæðisverðs leiddi til 0,28% hækkunar á vísitölu neysluverðs í apríl, sem hækkaði alls um 0,78%. Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að frekari hækkanir muni mælast á næstu mánuðum.

Mæliskekkja veldur hækkun

Að mati greiningardeildar er talsverð verðbólga framundan. „Eins furðulegt og það hljómar þá verða drifkraftar verðbólgunnar í næsta mánuði; mæliskekkja Hagstofunnar á byggingarkostnaði og gjaldskrárhækkun OR. Auk þess gerum við ráð fyrir áframhaldandi hækkun húsnæðisliðarins. Óvissa í spá okkar snýr að frekari hrávöruverðshækkunum, bæði á matvörum og eldsneyti. Auk þess getur húsnæðisliðurinn verið afar sveiflukenndur og mikil óvissa hversu sterk áhrif koma frá þeim lið á næstu
mánuðum,“ segir í Markaðspunktum. Spáð er að áhrif vegna gjaldskrárhækkana OR verði um 0,15% í maí. Þá kemur vanmat Hagstofunnar á byggingarkostnaði einnig fram í maí og verða áhrifin allt að 0,2% samkvæmt spánni.