„Makrílveiðar handfærabáta hafa gengið vel og var heildarafli þeirra rétt yfir 7 þúsund tonnum um miðja vikuna. Hátt í 50 bátar hafa landað afla og efsti bátur, Siggi Bessa SF, er kominn í um 500 tonn. Er það mesti afli sem veiðst hefur á einn handfærabát frá því makrílveiðar hófust, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum og á vef Fiskifrétta .

„Bátarnir hafa mokveitt í sumar og ég hef kannski fengið örfáum tonnum meira en þeir sem næstir koma. Hér er töluvert meira af makríl en sést hefur undanfarin ár,“ segir Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa SF.

„Siggi Bessa SF hefur landað í Keflavík og hefur aðallega verið að veiða þar fyrir utan og út að Garði. „Hér eru stórar torfur og auðvelt að veiða makrílinn. Ekki spillir veðrir fyrir því blíða hefur verið í allt sumar. Mest höfum við farið í 20 tonn á dag en þá löndum við tvisvar,“ segir Unnsteinn.“