„Þetta er sorgardagur fyrir skapandi tjáningu," tísti leikarinn Steve Carell á Twitter í gærkvöldi. Á vefútgáfu CNN Money kemur fram að hætt hafi verið við framleiðslu kvikmyndar sem Carell átti að leika aðalhlutverkið í. Vinnutitill myndarinnar var „Pyongyang" og átti hún að gerast í Norður-Kóreu. Á vef CNN kemur fram að hætt hafi verið myndina vegna árásar tölvuþrjóta á Sony fyrirtækið í gær. Mynd Carell, sem Gore Verbinski átti að leikstýra, er þar með önnur Hollywood-myndin sem hætt er við af ótta við að stjórnvöld í Norður-Kóreu láti til sín taka með einhverjum hætti.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum tilkynnti Sony í gærkvöldi að hætt væri við að frumsýna bíómyndina The Interview. Var það gert eftir að tölvuhakkarar réðust á fyrirtækið og stálu viðkvæmum trúnaðarupplýsingum. Talið er að tölvuþrjótar á vegum Norður-Kóreu stjórnar hafi staðið á bak við tölvuárásina. Þarlend stjórnvöld höfðu haft í hótunum vegna væntanlegrar sýningar myndarinnar en í henni er gert grín að Kim Jong Un. Myndin fjallar í grófum dráttum um tvo blaðamenn sem sendir eru til Norður-Kóreu til að myrða leiðtogann.