British Airways hefur ákveðið að fresta fram í byrjun mars frekara flugi til og frá Kína vegna áhrifa veirunnar sem kennd er við Wuhan borg.

Ákvörðun flugfélagsins er sögð tilkomin vegna áhrifa veirunnar á starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækja á svæðunum sem orðið hafa fyrir barðinu á faraldrinum, en mörg þeirra hafa dregið úr starfsemi meðan sjúkdómurinn geisar. Kínverskir ráðamenn hafa sagt að 132 einstaklingar hafi látist vegna veirunnar en 5.974 hafa sýkst af hennar völdum sem af er.

Brottflutningur erlendra ríkisborgara frá Wuhan borg sem alla jafna hefur verið í einangrun er nú hafinn. Fluttu Japanir 206 borgara sína frá borginni sem og Bandarísk flugvél lagði af stað í morgun með borgara þaðan.

Breska flugfélagið British Airways hefur flogið reglulega til bæði höfuðborgarinnar Beijing og Sjænghæ, en eftir ráðleggingar utanríkisráðuneytis Bretlands um að draga úr öllu óþarfa ferðum til og frá meginlandinu frestaði félagið frekara flugi. Hefur félagið stöðvað sölu á flugi fram í byrjun mars.

Veirufaraldurinn hefur núþegar haft töluverð áhrif á gengi bréfa móðurfélags British Airways, IAG, en bréf félagsins hafa lækkað um meira en 10% frá því um miðjan mánuðinn, en einnig hafa bréf Air France-KLM og Lufthansa fallið í verði að því er FT greinir frá.

Jafnframt hefur Hang Seng hlutabréfavísitalan í Hong Kong, þar sem markaðir hafa opnað á ný eftir nýárshátíð í landinu, lækkað um meira en 3%. Veiran hefur til að mynda haft áhrif á rekstur Toyota sem hefur frestað því að hefja rekstur á ný eftir hátíðirnar í fjórum verksmiðjum sínum í landinu.

Jafnframt hefur Starbucks kaffihúsakeðjan lokað 2.000 útibúum sínum í landinu. Keðjan hefur varað við að veiran gæti haft áhrif á afkomutölur félagsins en Kína er stærsti markaður keðjunnar utan Bandaríkjamarkaðar.

Fleiri félög hafa dregið úr ferðum starfsmanna sinna til landsins, má þar nefna HSBC, Standard Chartered, LG Electronics og Facebook. Apple hefur jafnframt varað við áhrifum veirunnar á birgðakeðjur sínar.