Eftir að hafa staðið fyrir prentuðum útgáfum af tímaritum sínum í nærri sjö áratugi hyggst Playboy hætta að gefa út prentað tímarit og færa útgáfu sína alfarið á alnetið. Er kórónuveirunni sem herjar á alheimssamfélagið kennt um endalok prentútgáfu tímaritsins. WSJ greinir frá þessu.

Playboy hefur átt undir högg að sækja fjárhagslega um nokkurt skeið og frá því að stofnandi tímaritsins, glaumgosinn Hugh Hefner, lét lífið árið 2017 hefur smátt og smátt verið að draga úr útgáfu á prentuðum tímaritum. Nú hefur eins og áður segir hefur verið ákveðið að hætta útgáfunni alfarið og færa hana yfir í stafrænt form.

Að sögn Ben Kohn, forstjóra Playboy Enterprises, segir að kórónuveiran hafi ýtt forráðamönnum félagsins í að gera útgáfuna alfarið stafræna, en samræður um að taka þetta skref hafi þegar verið búnar að standa yfir um nokkurt skeið. Hann segir jafnframt að vorútgáfa tímaritsins, sem kemur út í vikunni, muni verða síðasta prentútgáfa tímaritsins á þessu ári í Bandaríkjunum. Hann útilokar þó ekki að viðhafnaútgáfur tímaritsins muni verða prentaðar á næstu árum. Auk þess muni tímaritið áfram koma út á prenti á ýmsum erlendum mörkuðum, í gegnum svokallað sérleyfi (e. franchising).

Forfallnir Playboy aðdáendur erlendis gætu því hugsanlega tekið gleði sína á ný, en ljóst er að bandarískir aðdáendur þurfa að sætta sig við að breyta áratugagömlum venjum.