Davíð Helgason, forstjóri Unity Technologies, segir hans helsta verkefni í dag vera að píra út í myrkrið og halda í við þróunina. Tæknigeirinn sé sífellt á fleygiferð og nauðsynlegt sé fyrir Unity að geta brugðist við örum breytingum.

Hugbúnaðarfyrirtækið Unity Technologies var stofnað árið 2003. Starfsmenn í dag eru um 240 talsins í 15 löndum. Fyrirtækið býr til verkfæri fyrir tölvuleikagerð og er hugbúnaðurinn sá vinsælasti meðal þeirra sem búa til leiki fyrir snjallsíma. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er ítarlegt viðtal við Davíð um uppgang og rekstur félagsins sem hefur tvöfaldast að stærð á hverju ári undanfarin fimm ár. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en verður þess í stað birtur hér í heild sinni.

Talið berst að kvikleika tækniiðnaðarins og Davíð er sammála um að bransinn sé afar kvikur. "Allir geirar eru sífellt á hreyfingu en tæknigeirinn er alltaf á fleygiferð. Hættan er alltaf sú að verða úreldur. Eftir að við fengum stórar fjárfestingar hef ég ekki þurft að hafa jafn miklar áhyggjur af fjármálum eins og áður. Í byrjun var helsta áhyggjuefnið að geta greitt laun um hver mánaðamót. Næst snéri verkefnið að vexti og það að læra að reka stærra og flóknara fyrirtæki. Í dag erum við á góðum stað og með mikið af kláru fólki við reksturinn," segir Davíð sem viðurkennir fúslega að hann hafi ekki verið neinn sérstakur forstjóri frá byrjun. Hægari vöxtur í byrjun hafi hins vegar gefið honum tíma til að læra.

„Mikilvægasti hlutinn af minni vinnu í dag er að píra út í myrkrið og halda í við þróunina,“ segir Davíð. Hann nefnir sem dæmi að fyrir rúmu ári hafi hugbúnaðarfyrirtækið Adobe bætt Flash forritið sitt þannig að það réð við þrívídd. Áður réði forritið illa við þrívíddartækni. „Við heyrðum af því rúmu ári áður og það var síðan tilkynnt nokkru fyrir útgáfu. Þá þurftum við að passa upp á að Unity væri besta verkfærið til að gera Flash-þrívíddarleiki. Hættan var sú að þetta yrði stór hluti af framtíðinni.“

„Við slógum til og settum einhverja af okkar bestu forriturum í þróun. Eftir ársþróun er Unity orðið þannig að þú getur gert Flash-leiki með Unity. Þú getur því gert allt með okkar hugbúnaði, keypt viðbætur í Unity Asset Store, pakkað því saman og keyrt í Flash spilara." Davíð segir útlit fyrir að tæknin verði ekki jafn stór og búist var við í upphafi. Dæmið sýni hins vegar að Unity sé vel í stakk búið til þess að bregðast við tækniþróun. Bæði stjórnendur og starfsmenn séu sífellt að huga að breytingum og oft komi ábendingar frá forritunum. "Þegar maður er með teymi sem pæla svo mikið í þessu þá veit maður að við erum í góðum málum,“ segir Davíð Helgason.

Viðtalið má lesa í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.