Deildarráð raunvísindadeildar Háskóla Íslands tekur ekki vel í hugmyndir um styttingu framhaldsskólanáms úr fjórum árum í þrjú ár. „Við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands eru uppi áhyggjur að styttra nám til stúdentsprófs leiði til þess að erfiðara verði fyrir nemendur að öðlast nægan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og raunvísindum. Afleiðingarnar yrðu skertir möguleikar í námsvali, þar sem inntökuskilyrði í grunnám við deildir á Verkfræði- og náttúruvísindasviði haldast óbreytt," segir í ályktun frá ráðinu.

Í ályktuninni kemur fram að verði af styttingu námsins muni fjöldi námsdaga sem nemendur veri til raungreinakennslu verða tæpri önn minni en þar sem munurinn er mestur.

„Vandséð er hvernig á að viðhalda eðlis- og efnafræðikennslu í þeirri mynd sem hún er nú ef af styttingu verður. Eðlisfræðikennsla í framhaldsskólum hefst yfirleitt ekki fyrr en ákveðinn grunnur hefur verið lagður í stærðfræði. Sýnt er að eitthvað verður undan að láta, annaðhvort byrja nemendur eðlisfræðinám sitt í framhaldsskóla án tilskilins grunns, eða hluta eðlisfræðikennslunnar verður fórnað."

Þá lýsir ráðið alvarlegri stöðu í sumum grunnskólum landsins. „Nú þegar hefur niðurskurður í mörgum skólum leitt til þess að það er vonlítið fyrir nemendur þaðan að spreyta sig á verkfræði- eða náttúruvísindagreinum." Ekki er að finna nánari skýringu á þessu atriði í ályktuninni.