*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 27. apríl 2018 16:50

Hafna jafnræði Hjálparmiðstöðvar og mosku

Borgarstjórn vísar frá tillögu um að tvö trúfélög sem byggja hlið við hlið njóti sömu kjara, nokkrum dögum fyrir skóflustungu.

Ritstjórn
Hjálparmiðstöð Hjálpræðishersins mun rísa í Sogamýri við hliðina á væntanlegri mosku Félags múslima.
Aðsend mynd

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður borgarstjóraefnis flokksins, Eyþórs Arnalds, segir borgarstjórnarmeirihlutann ekki hafa viljað taka til meðferðar tillögu sína um jafnræði milli tveggja trúfélaga í borginni.

Annað trúfélaganna, Hjálpræðisherinn hyggst taka fyrstu skóflustunguna að nýrri hjálparmiðstöð sem starfsemi trúfélagsins hverfist um klukkan 14:00 á morgun eins og fram kemur á Facebook.

Trúfélögin tvö hafa fengið lóðum úthlutað hlið við hlið í Sogamýrinni, en öfugt við væntanlega mosku Félags múslima sem mun rísa á áberandi stað við mislæg gatnamót Miklubrautar og Sæbrautar, fær Hjálparmiðstöð Hjálpræðishersins sem verður í hvarfi þar við hliðina, ekki niðurfelld gjöld til borgarinnar.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hafnar að fella niður sömu gjöld á bæði trúfélögin

„Á fundi borgarráðs í gær flutti ég tillögu um niðurfellingu allra gjalda vegna byggingar hjálparmiðstöðvar Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Á lóðinni við hliðina hefur annað trúfélag fengið lóð og þar hafa öll gjöld verið niðurfelld,“ segir Kjartan sem segir þá venju vera í borgarstjórn þar sem hann hefur starfað frá árinu 1994 að fresta afgreiðslu tillagna minnihlutans um að minnsta kosti einn fund.

„Nú brá hins vegar svo við að fulltrúar meirihlutans afgreiddu tillöguna strax með því að vísa henni frá. Það gerðu þeir með þeim rökstuðningi að samhljóða tillaga hafi áður verið afgreidd á vettvangi borgarráðs.“

Kjartan segir það hins vegar rangt enda sé tillagan nú ekki efnislega eins. „Hún kvað ekki á um niðurfellingu allra gjalda heldur einungis gatnagerðargjalda og byggingarréttargjalds. Eðlilegt hefði því verið að taka tillöguna til eðlilegrar meðferðar en það vildi meirihlutinn ekki.“

Seldu eign á lóð sem greitt var fyrir á 630 milljónir

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma seldi Hjálpræðisherinn Herkastalann gamla í kvosinni fyrir 630 milljónir, sem hefur verið notað sem röksemd gegn því að trúfélagið fái gjöld felld niður fyrir nýja miðstöð starfsemi sinnar. Trúfélagið þurfti þó, ólíkt flestum öðrum trúfélögum, að greiða fyrir þá lóð á sínum tíma.

Frekari fréttir um málefni Hjálpræðishersins:

27. janúar 2018 - Til skammar að steyti á Hjálpræðishernum
24. desember 2016 - Um 300 manna jólahald í Ráðhúsinu
19. október 2016 - Trúfélög fái ekki sömu fyrirgreiðslu
22. janúar 2016 - Herkastalinn seldur á 630 milljónir
14. desember 2015 - Herkastalinn til sölu