Ungir sjálfstæðismenn lýsa yfir andstöðu við nýlegt frumvarp Péturs Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um stjórn fiskveiða.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS). Þar segir að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að allar aflaheimildir verði þjóðnýttar og þeim svo endurúthlutað til almennings.

„Ungir sjálfstæðismenn telja að hugmyndir um þjóðnýtingu eigi ekki heima í flokkum sem vilja kenna sig við hægristefnu og frjálst markaðshagkerfi. Þjóðnýting stenst að sjálfsögðu ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að þegar aflamarkskerfi hafi verið komið á hafi aflaheimildum verið úthlutað til þeirra sem höfðu sýnt áræði með því að fjárfesta í greininni. Rúmlega 90% aflaheimilda hafi skipt um eigendur frá þeim tíma.

„Ungir sjálfstæðismenn vilja standa vörð um rétt þeirra sem sýnt hafa áræði til að fjárfesta í aflaheimildum, tækjum og þekkingu og skapað þannig ómældar skatt- og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið,“ segir í ályktuninni.

„Séreignarréttur er besta leiðin til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar til framtíðar og til að tryggja að hún skili sem mestum arði til samfélagsins til langs tíma.“