*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Innlent 12. október 2018 10:48

Hafnartorg og H&M Home opna í dag

Formleg opnun verður kl. 11:20. Bílakjallari undir svæðinu opnar í desember en þar verða 1.100 ný bílastæði.

Ritstjórn
Síðustu daga hefur staðið yfir lokafrágangur fyrir að fyrsti áfangi Hafnartorgs sé tekinn í notkun með opnun verslana H&M og H&M Home.
Haraldur Guðjónsson

Dagurinn í dag er sagður marka ákveðin tímamót í verslunarsögu miðborgar Reykjavíkur með opnun H&M og H&M Home á Hafnartorgi. Staðgengill borgarstjóra opnar fyrsta áfanga Hafnartorgsins klukkan 11:20 við hlið verslunarinnar sem opnar klukkan 12:00. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fasteignafélaginu Reginn.

Með þessum áfanga snýr verslun í miðborginni úr vörn í sókn og lifandi tenging skapast frá gamla miðbænum yfir á svæðin kringum Hörpu og höfnina segir jafnframt í tilkynningunni. Reginn er eigandi alls verslunarhúsnæðis á Hafnartorgi og leggur áherslu á að skapa þar einstakt verslunar- og þjónustusvæði til framtíðar með iðandi mannlífi og lifandi göngugötum.

Á næstunni munu svo fleiri spennandi alþjóðlegar verslanir opna á Hafnartorgi auk þess sem um 1.100 bílastæði munu bætast við í kjallaranum undir svæðinu með tengingu við bílakjallara Hörpu.

„Með opnun fjölda nýrra verslana og tilkomu þekktra alþjóðlegra vörumerkja eykst aðdráttarafl miðborgarinnar sem jafnframt skapar fleiri tækifæri til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu á svæðinu,“ segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins.

„Við öll sem stöndum að verkefninu höfum gríðarlega trú á því og vitum að miðborg Reykjavíkur mun eflast með tilkomu nýrra og glæsilegra verslunarrýma. Fyrsti áfangi Hafnartorgs opnar í dag en ætlunin er að Hafnartorg verði að fullu komið í rekstur um miðjan apríl og fyrsti hluti bílakjallarans verður opnaður í desember á þessu ári.“

Stikkorð: H&M Hafnartorg opnun