Í gær kynnti sérfræðihópur sem unnið hefur að því að meta stöðuna og möguleikana á afléttingu hafta niðurstöður sínar fyrir forsætis- og fjármálaráðherra. Kom þetta fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Ársfundi atvinnulífsins í dag. Sagði Sigmundur hópinn hafa skilað afar góðu verki og að hann væri bjartsýnn á að hreyfing myndi sjást í þessum málum áður en langt um líður.

Sigmundur sagði losun fjármagnshafta stærsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. „Við megum ekki hætta á að okkur fari að líða vel í því skjóli sem höftin veita. Í kringum höftin verður til iðnaður fólks, hverra hæfileikar væru betur nýttir í virðisaukandi starfsemi. Verð á mörkuðum bjagast vegna haftanna. Þrýstingur á að losa um höftin kemur ekki frá heimilunum því fæst þeirra finna fyrir þeim með beinum hætti. Staðreyndin er hins vegar sú að höftin rýra samkeppnishæfni þjóðarinnar hvert einasta ár sem þau eru við lýði, draga úr trúverðugleika Íslands og gera okkur erfiðara um vik að skapa þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi ákjósanleg skilyrði til að búa á Íslandi,“ sagði hann.

Hann ítrekaði þó að nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi hafta sé að skuldaskilum fallinna banka sé lokið með þeim hætti að þau ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. „Af því verður að sjálfsögðu enginn afsláttur gefinn. Betri skilningur á því virðist vera að myndast hjá þeim sem höndla með kröfur á hina föllnu banka svo sem sést á því að verð á kröfunum hefur lækkað að undanförnu. Nái slitastjórnir ekki að leggja fram nauðasamning sem samræmist efnahagslegri stöðu Íslands til framtíðar blasir við að taka verður föllnu bankana til gjaldþrotaskipta.“

Ræðu Sigmundar má lesa í heild sinni hér.