*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 16. maí 2013 13:15

Hagar skiluðu tæplega þriggja milljarða hagnaði

Hagnaður Haga jókst um rúmar sex hundruð milljónir króna milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagar högnuðust um 2.958 milljónir króna á reikningsárinu sem lauk 28. febrúar í ár fyrra samanborið við 2.344 milljónir á reikningsárinu á undan. Velta jókst úr 68,5 milljörðum króna í 71,7 milljarða og framlegð jókst úr 16,1 milljarði í 17,3 milljarða. Rekstrarhagnaður nam tæpum fimm milljörðum króna en var 4,2 milljarðar ári fyrr.

Hreinn fjármagnskostnaður jókst töluvert milli ára, var 54 milljónir króna reikningsárið 2011-2012, en var 537 milljónir ári síðar. Það skýrist af tekjufærslu á fyrra ári að upphæð 515 milljónir króna sem var tilkomin vegna endurgreiðslu á gengistryggðu láni félagsins, í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar. Fyrirtækið greiddi 780 milljónir króna í tekjuskatt.

Heildareignir samstæðunnar námu 25,7 milljörðum króna í lok rekstrarárins, handbært fé nam 2,9 milljörðum, eigið fé var 8,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall var 34,0% í lok rekstrarársins.

Í tilkynningu segir að rekstur Haga hafi verið umfram áætlanir og betri en í fyrra. Áætlanir núverandi rekstrarárs séu nokkuð í takt við nýliðið ár. Það er stefna félagsins að skoða áfram mögulegar fjárfestingar í fasteignum fyrir rekstrareiningar samstæðunnar. Einnig verður það fé sem til verður í rekstrinum, að einhverju marki, notað til niðurgreiðslu vaxtaberandi lána.

Stikkorð: Hagar