Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,4% lækkun  verðlags í júlí og að 12 mánaða verðbólga lækki úr 12,2% í mánuðinum á undan og verði 11,6%. Það yrði lægsta 12 mánaða verðbólga síðan í mars 2008.

Segir í forsendum Hagfræðideildar Landsbankans fyrir sinni spá að í  mælingunni nú megi búast við nokkurri lækkun á fatnaði og skóm vegna þess að sumarútsölur eru nú hafnar í mörgum verslunum.

„Spá okkar gerir einnig ráð fyrir hóflegum áhrifum til lækkunar vegna fasteignaliðarins líkt og í síðasta mánuði. Á móti vegur þó nokkur verðhækkun á eldsneyti sem rekja má til skattahækkana á bensíni. Þá má búast við hækkun á ýmsum öðrum innflutningsvörum s.s. matvöru og bifreiðum.

Útsölur á fatnaði, skóm, heimilistækjum og húsgögnum draga mjög úr hækkun vísitölunnar (VNV) í júlímánuði. Útsölur í helstu verslunarmiðstöðvum hófust í kringum 8. júlí og skila sér því af töluverðum þunga inn í mælinguna nú. Við eigum von á að föt og skór lækki um 10% frá fyrri mánuði en það jafngildir um 0,6% áhrifum til lækkunar VNV.”

Þá segir að búast megi við að hækkun á eldsneyti valdi um 0,25% hækkun á VNV í mánuðinum en að stærstum hluta er um er að ræða hækkun vegna skattabreytinga. Þessar verðbreytingar á bensíni komu ekki til framkvæmda strax eftir lagasetninguna vegna ríflegrar birgðastöðu olíufélaganna.