Eignarhaldsfélagið Lagerinn ehf., sem meðal annars á félögin Ilva ehf., Rúmfatalagerinn ehf. og Jósku ehf., en síðastnefnda félagið rekur húsgagnaverslanir í Eystrasaltslöndunum, hagnaðist um tæplega 1,1 milljarð króna á síðasta rekstrarári og ríflega fimmfaldaðist hagnaðurinn. Rekstrarár félagsins er frá marsbyrjun til febrúarloka.

Sem fyrr er stærsti áhrifaþátturinn afkoma dótturfélaga en hún var jákvæð um tæplega 1,7 milljarða samanborið við 830 milljónir í plús rekstrarárið á undan. Afkoma Rúmfatalagersins var jákvæð um 519 milljónir á síðsta rekstrarári og eigið fé jákvætt um 2,6 milljarða. Ilva tapaði á móti 101 milljón króna og er eigið fé neikvætt um 1,2 milljarða.

Jóska hagnaðist um 1,2 milljarða á síðasta rekstrarári og er eigið fé jákvætt um 8,2 milljarða. Eignir samstæðunnar voru metnar á 11 milljarða í lok rekstrarársins, hækkuðu um 1,1 milljarð, en skuldir námu 8,6 milljörðum og lækkuðu um 143 milljónir.