Arion banki hagnaðist um 4,2 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 900 milljónum krónum meira en á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur hagnaður bankans 10,1 milljarði króna samanborið við 14,5 milljarða á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Arion banka að hagnaður af kjarnastarfsemi nam 9,3 milljörðum króna samanborið við 10,9 milljarða í fyrra. Rekstrartekjur lækka milli ára og námu 31,5 milljörðum króna samanborið við 34,4 milljarða í fyrra. Helstu ástæður eru lækkun vaxtamunar, sem m.a. er tilkomin vegna bindingar innlána og skuldabréfaútgáfu. Einnig eru aðrar tekjur lægri vegna minni virðisbreytinga eigna. Hreinar vaxtatekjur námu 18,3 milljörðum króna og eru þær nokkuð lægri en á sama tíma í fyrra vegna hærri fjármagnskostnaðar og lægri verðbólgu.

Dregur úr arðsemi á fyrstu níu mánuðum ársins

Arðsemi eigin fjár á þriðja ársfjórðungi var 12,2% samanborið við 10,7% á sama ársfjórðungi í fyrra. Arðsemi af kjarnastarfsemi nam 11,2% en var 12,4% á þriðja ársfjórðungi árið 2012. Á fyrstu níu mánuðum ársins var arðsemi eigin fjár 10,0% samanborið við 15,9% á sama tímabili í fyrra. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 9,2% en var 11,9% á sama tíma árið 2012. Heildareignir námu 936,9 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna í árslok 2012.

Uppgjör Arion banka