Veitingastaðurinn Bautinn á Akureyri hagnaðist um 14,6 milljónir króna í fyrra. Það er talsvert lakari niðurstaða en árið 2014 þegar hagnaðurinn nam 38,7 milljónum. EBITDA Bautans dróst saman um helming og nam 23,8 milljónum. Handbært fé frá rekstri dróst saman um 77 prósent.

Eignir Bautans námu 110 milljónum króna og þar af nam handbært fé 32 milljónum. Bókfært verð rekstrarfjármuna félagsins var 45,4 milljónir króna í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins var 76 milljónir á sama tíma. Félagið greiddi 31,5 milljónir króna í arð á síðasta ári, en Guðmundur K. Tryggvason á allt hlutafé Bautans.