Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélag Warren Buffett, skilaði 4,16 milljarða dala hagnaði í fyrra, andvirði um 540 milljarða króna og jókst hrein eign félagsins um 18,3 milljarða dala. , Árið 2013 nam hagnaður félagsins 4,99 milljörðum dala.

Í árlegu bréfi sínu til hluthafa segist Buffett, sem er bæði stjórnarformaður og forstjóri Berkshire, bjartsýnn á horfur í efnahagsmálum á þessu ári og gagnrýnir þá sem hann kallar "predikara svartsýninnar".

Hann bendir einnig á að gengi hlutabréfa félagsins hafi á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá því að hann tók við stjórnartaumum Berkshire hækkað úr 19 dölum í 146.186 dali. Þetta jafngildi 19,4% árlegri uppsafnaðri ávöxtun á tímabilinu.

Margar af fjárfestingum Berkshire skiluðu góðri ávöxtun á árinu, en Buffett segist hafa gert mistök í því að hafa ekki selt hlut félagsins í bresku verslanakeðjunni Tesco fyrr. Segir hann að þrátt fyrir að slæmar fréttir af Tesco hafi hver rekið aðra hafi hann "sogið þumalinn" í stað þess að losa sig við bréfin. Það gerði hann að vísu á endanum, en Berkshire tapaði 444 milljónum dala á fjárfestingunni.