*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Erlent 11. febrúar 2020 18:58

Hagnaður Daimler fellur um yfir 60%

Þýski bílaframleiðandinn á bakvið Mercedes-Benz og Vans hagnaðist um sem nemur 373,4 milljörðum króna í fyrra.

Ritstjórn
Þýski bílaframleiðandinn Daimler framleiðir meðal annars Mercedes-Benz.

Þýski bílaframleiðandinn Daimler, sem meðal annars framleiðir Mercedes-Benz hefur tilkynnt um nærri 65% lægri hagnað á síðasta ári en þar áður vegna kostnaðar af díselhneykslinu sem skók mörg þýsk bílafyrirtæki.

Fór hagnaður félagsins niður úr 7,6 milljörðum evra árið 2018 í 2,7 milljarða evra á síðasta ári, eða sem samsvarar um 373,4 milljörðum króna. Þrátt fyrir þetta eru sölutölur félagsins nokkuð jafnar milli ára, en félagið hefur jafnframt lækkað árlegar arðgreiðslur sínar um 72%, eða úr 3,25 evrur á hlut niður í 90 evrusent á hlut.

Félagið hefur bókað 5,4 milljarða evra í lögfræðikostnað, þar af meira en 4 milljarða vegna díselhneykslisins, þó félagið haldi því statt og stöðugt fram að það hafi ekkert brotið af sér.

„Við munum endurreisa fjárhagslega stöðu fyrirtækisins,“ lofaði Ola Kallenius forstjóri félagsins að því er segir á FT, en hann tók við félaginu í maí. „Það verður þó áralöng bið þangað til hagnaður Daimler verður á ný komin á þann stað sem hluthafar eiga að geta vænst frá bílaframleiðanda af þessari stærðargráðu.“

Félagið hefur tilkynnt um um að 10 þúsund störf verði lögð niður í lok árs 2022, en hjá því starfa nú um 174 þúsund manns í Þýskalandi. Jafnframt hafa heyrst fréttir um að 5 þúsund störf til viðbótar gætu verið lögð niður og neitaði forstjórinn að sverja fyrir að svo yrði ekki.

Auk mikils kostnaðar vegna hneykslismála í kringum ásakanir um að hafa falsað útblásturstölur frá díselbílum hefur félagið þurft að leggja út í mikinn kostnað til að auka framleiðslu á rafbílum og plug-in tvinnbílum til að forðast sektir frá yfirvöldum í ESB vegna nýrra útblástursreglna.

Reglurnar, sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn, eru þannig fram settar að meðalútblástur heildarbílaflota undir merkjum fyrirtækisins ætti að nema 95 grömmum af CO2 á hvern kílómetra á næstu árum.

Miðað við núverandi hlutfall eldsneytisknúinna bíla og annarra er núverandi meðaltal bílaframleiðandans 137 grömm en rafbílar eru einungis 2% af sölu hans. Á sama tíma hefur hagnaðarhlutfall á Mercedes-Benz, aðalmerki félagsins, meira en helmingast og er það nú komið í 3,6%, þrátt fyrir 17% söluaukningu í Kína, stærsta einstaka markaði félagsins.

Vans merkið tapaði hins vegar 3 milljörðum evra sem Kallenius forstjóri lýsti sem „hræðilegum“. Gengi bréfa Daimler hefur lækkað um 0,98% í dag, niður í 42,57 evrur þegar þetta er skrifað, en bréf félagsins hafa lækkað um meira en 14% á síðasta árinu.