Hagnaður Daimler, móðurfélags Mercedes Benz, næstum tvöfaldaðist á fyrsta ársfjórðungi.  Nam hagnaðurinn 1,2 milljörðum evra en var 612 milljónir evra í fyrra.

Dr. Dieter Zetsche stjórnarformaður Daimler og forstjóri Mercedes Benz sagði í tilkynningu "Afkoman var frábær á fyrsta ársfjórðungi. Afkoman er umfram áætlanir og staðfestir spár okkar fyrir árið 2011."

Daimler seldi alls 461.700 ökutæki á fjórðungnum sem er 15% aukning milli ára.  Þar af var sala Mercedes Benz 310.700 sem er 12% aukning milli ára.

Söluaukninguna má á miklu leyti rekja til meiri sölu í Kína.  Samsteypan tapaði hins vegar um 80 milljónum evra á hörmungunum í Japan.

Útsýnið bjart fyrir árið í heild

Daimler staðfestir áætlun 2011 og gerir ráð fyrir að selja yfir 2 milljónir ökutækja árið 2011 í samanburði við 1,9 milljónir árið 2010. Þar af áætlar samsteypan að sala á Mercedes Benz fari fyrir 1,2 milljónir bifreiða sem yrði mesta sala frá upphafi.