Hagnaður Haga á á reikningsárinu, sem lauk 29. febrúar síðastliðinn, nam rétt tæplega 3,6 milljörðum króna. Það er lækkun milli ára um ríflega 230 milljónir króna, en í fyrra var hagnaður tímabilsins 3,83 milljarðar króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Hagnaður á hvern hlut lækkaði úr 3,27 krónum í 3,07 krónur á hvern hlut milli ára. Sölutekjur námu 78 milljörðum króna og voru einum milljarði meira en árið á undan. Rekstrarkostnaður nam þá 72 milljörðum króna og tekjuskattur nam tæpum milljarði króna. Launakostnaður hækkaði um hálfan milljarð milli ára.

Eignir félagsins námu 29,7 milljörðum króna. Þaðan af voru skuldir 13,3 milljarðar og eigið fé 16,3 milljarðar. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 54%. Eignir félagsins jukust um tvo milljarða milli ára á sama tímabili. Hækkunin stafar af aukningu eigin fjár um tæpan milljarð og aukningu skulda um tæpan milljarð sömuleiðis.